Hvað er í gangi hjá Arnarlaxi? Samkvæmt þessari frétt tilkynntu fulltrúar fyrirtækisins til MAST tvö óhöpp við sjókvíar í Tálknafirði, þar á meðal að komið hefði gat á kví. Framkvæmdastjórinn neitar hins vegar að það hafi gerst og er þar með kominn í mótsögn við starfsmenn sína.
Viðbrögð MAST eru líka einkennileg. Átta dögum eftir að tilkynnt var um óhöppin hefur stofnunin enn ekki farið á staðinn til að sinna eftirlitsskyldu sinni. Þessi lausatök eru mikið áhyggjuefni.
Skv. umfjöllun Vísis:
Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlaxi mánudaginn 12. febrúar um tvö aðskilin óhöpp hjá fyrirtækinu. Annars vegar var um að ræða skemmd á sjókví Arnarlax í Tálknafirði og hins vegar tilkynnti fyrirtækið að gat hefði komið á sjókví fyrirtækisins í Arnarfirði í kjölfar óveðurs í firðinum.
Hjalti Andrason, upplýsingafulltrúi Matvælastofnunar, staðfestir að fyrirtækið hafi enn ekki tekið út kvíarnar sem um ræðir, viku eftir að stofnuninni var tilkynnt um óhöppin. „Matvælastofnun var í reglulegum samskiptum við Arnarlax eftir að tjónið kom í ljós vegna úrbóta og bíður nú skýrslu fyrirtækisins um atvikin. Matvælastofnun hefur eftirlit með búnaði fiskeldisfyrirtækja. Sjókvíarnar verða teknar út af stofnuninni eins fljótt og unnt er,“ segir Hjalti.
Arnarlax rataði í fréttir í gær þar sem sjókví er sögð hafa sokkið í Tálknafirði. Starfsmenn fyrirtækisins hafa viðurkennt að hafa siglt á kvína með fyrrgreindum afleiðingum.
Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir þetta alrangt í tilkynningu sem hann sendi frá sér í gær. Einn af flothringjum kvíarinnar hafi brotnað, en engin net rofnað. Enginn vafi leiki á því að fiskur hafi ekki sloppið úr kvínni.“