Vísir greip á lofti ábendingu okkar frá því fyrr í dag um „kynningu“ sjókvíaeldislobbísins á áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Hvernig staðið er að þessum fundi vekur eðlilega víðar furðu en hjá okkur.
„Í Noregi er lagt blátt bann við notkun á laxastofnum frá öðrum löndum í fiskeldi. Hér við land er hins vegar norskur eldislax í kvíunum, sem eykur mjög þá ógn sem villtum laxastofnum stafar af sleppifiski,“ segir Jón Kaldal talsmaður IWF í samtali við Vísi.
Jón segir jafnframt að hagsmunagæslufólk sjókvíaeldisfyrirtækjanna tjaldi nú öllu til í þrýstingi sínum á Hafrannsóknastofnun og löggjafarvaldið. Hann bendir á fund sem boðað hefur verið til á morgun, segir þar nokkra af helstu almannatengslastofum landsins ásamt lögmannsstofunni Lex starfa fyrir iðnaðinn, efna til kynningar fyrir fjölmiðla. Jón vill reyndar hafa orðið „kynning“ innan gæsalappa en þar standi til að fjalla um áhættumat Hafrannsóknastofnunar, sem er þeim mikill þyrnir í augum.
„Athyglisvert er að engum fulltrúa Hafrannsóknastofnunar er boðið til þessa viðburðar. Þau sem sitja fyrir svörum eru öll á vegum sjókvíaeldisins með einum eða öðrum hætti. Þar á meðal er Þorleifur Ágústsson sem tók þátt í að skipuleggja för atvinnuveganefndar Alþingis til Noregs á dögunum.“