Bubbi segir það umbúðalaust í aðsendri grein sem birtist á Vísi. Það þarf að kasta þessu klíku- og fyrirgreiðslukerfi á öskuhauga sögunnar.

„Annar auðmaður ásamt fyrrverandi forseta Alþingis sem er talsmaður Norðmanna er eiga nærri öll laxeldisfyrirtæki á Íslandi hefur nánast óheftan aðgang að þingmönnum og ráðherrum í gegnum sitt fólk. Báðir þessir ágætu menn hafa ítök og vinatengsl inn í Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hafa samband við þá sem ráða og segja: Það eru einhver ráðuneyti að pönkast í laxeldinu fyrir vestan og hafa fellt niður leyfin þeirra. Er ekki hægt að laga þetta?

Slagorð þeirra verður: „Björgum Vestfjörðum!“ Og á nokkrum dögum fer áróðursmaskína í gang og sjávarútvegsráðherra breytir einfaldlega lögum til að bjarga Vestfjörðum og kannski einhverjum öðrum í leiðinni. Því um daginn voru nokkrir einstaklingar að selja Norðmönnum hluta sinn í laxeldisfyrirtæki. Sumir fengu á annan milljarð í vasann en „Björgum Vestfjörðum“ fékk ekkert.

Alþingi er algjörlega rúið virðingu og ráðamenn margir sömuleiðis. Og svo eru menn hissa á að alþýðan sé reið. Menn skulu ekki vera hissa þótt himnarnir ræski sig.

Þruman er að boða okkur stríð.