Sjö umhverfisverndarsamtök, Landvernd, Eldvötn, Fjöregg, Fuglavernd, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ungir umhverfissinnar, hafa kvartað til eftirlitsnefndar Árósasamningsins vegna breytinga á lögum um fiskeldi.
„Í yfirlýsingu frá samtökunum sjö segir að Árósasamningurinn hafi meðal annars verið gerður til að tryggja að fleiri raddir heyrðust þegar ákvarðanir um stórar framkvæmdir eða rekstrarleyfi eru teknar. Við bráðabirgðaleyfisveitingu samkvæmt hinum nýju lögum sé hins vegar ekki gert ráð fyrir þátttöku almennings og samtaka almennings eins og umhverfisverndarsamtökum við ákvarðanatökuna þannig að þessir aðilar geti komið sjónarmiðum sínum að áður en leyfi er veitt. Einnig útiloki nýja löggjöfin kærurétt umhverfisverndarsamtaka vegna leyfisveitinga til óháðs og hlutlauss aðila eins og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá telja samtökin að með lagasetningunni hafi Alþingi vegið mjög að sjálfstæði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála gagnvart löggjafarvaldinu því lögin hafi verið sett til að hægt væri að fella úr gildi úrskurði nefndarinnar.“