Sjókvíaeldisfyritækin á Íslandi „eru að stærstum hluta dótturfélög vellauðugra norskra fiskeldisrisa. Þeir eiga ekki að þurfa sérstaka aðstoð ríkisins, afslátt af lögum um mengunarvarnir né nánast ókeypis afnot af sameiginlegum auðlindum íslensku þjóðarinnar. Þó er öll þessi atriði að finna í þeim frumvarpsdrögum sem sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram um breytingar á lögum um fiskeldi,“ segir meðal annars í þessari grein Jóns Kaldals, sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
„Ekki hefur farið fram hjá neinum að eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna berjast hart fyrir sínum málstað. Það er skiljanlegt þegar skoðaðir eru þeir gríðarlega miklu persónulegu hagsmunir sem eru í húfi fyrir þá og þau fyrirtæki sem þeir tengjast. Eitt dæmi sem sýnir þessa stöðu í hnotskurn er Fiskeldi Austfjarða. Síðla árs 2017 var 45,2% hlutur í félaginu seldur fyrir 965 milljónir króna en í kaupsamningnum er klásúla um að kaupverðið muni fjórfaldast ef leyfi fást til aukinnar framleiðslu á næstu árum. Fer þá í 3,9 milljarða króna.
Þetta er dæmi um gríðarlega mögulega hækkun á innan við helmings hlut í einu fyrirtæki. Þegar það er yfirfært á markaðinn í heild margfaldast milljarðarnir. Söluvaran er aðgangur að íslenskri náttúru, sameign þjóðarinnar. Seljendurnir eru fáeinir einstaklingar.“