Við treystum á að ný ríkisstjórn taki öryggi Farice fjarskiptastrengjanna sem liggja um Seyðisfjörð fastari tökum en síðasta ríkisstjórn.
Botnfestingar sjókvía, sem fráfarandi ríkisstjórn ákvað að heimila í firðinum, eru bein ógn við þessa mikilvægu fjarskiptainnviði.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir mikilvægt fyrir Íslendinga að efla varnir þegar kemur að neðansjávarstrengjum. Atlantshafsbandalagið ætlar að auka varnarbúnað sinn á Eystrasaltinu eftir að sæstrengur skemmdist á jóladag.
…
Hún segir varnarmálin hafa verið rædd í stjórnarmyndunarviðræðum ríkisstjórnarflokkanna.„Við ræddum það að efla meðal annars öryggi og varnir landsins hér innan utanríkisráðuneytisins, varnarmálaskrifstofuna, og samþætta þetta enn betur. Það er mikið í húfi fyrir okkur Íslendinga, en við reiðum okkur mikið á fjarskiptainnviði, strengina í sjónum. Við þurfum við að tryggja þessi samskipti við aðrar þjóðir, sérstaklega nágrannaþjóðir okkar mun betur.“
„En ég vil líka undirstrika það að samskiptin hafa verið aukin, sérstaklega við þau nágrannaríki okkar sem tengjast neðansjávarstrengjunum. Skipaeftirlit hefur verið aukið, en það er alveg ljóst á þessum tilvikum núna í Eystrasaltinu að allt Atlantshafsbandalagið verður að gera mun betur og Evrópusambandið líka þegar kemur að þvingunaraðgerðum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.