Í nóvember einum drápust eða var fargað vegna þessu hversu illa þeir voru særðir 633 þúsund eldislaxar í sjókvíum við Ísland.
Í fyrra drápust í sjókvíunum eða var fargað 4,5 milljónir eldislaxa á árinu. Talan er komin í 3.715.904 (3,7 milljónir!) á þessu ári og enn á eftir að upplýsa um dauðann í desember.
Hverslags fólk vill vinna við að fara svona með dýr?
Í umfjöllun Vísis er rætt við Jón Kaldal hjá IWF:
…Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, segir í samtali við Vísi að meðalafföll í sjókvíaeldi sé að stefna í yfir tuttugu prósent á árinu.
„Þetta er tala sem nær yfir fisk sem drepst í kvíunum eða er það illa særður að það þarf að farga honum. Hver eldislota varir lengur en mánuður, í sjókvíaeldi eru þetta svona 18 til 24 mánuðir sem eldislaxinn er í kvíunum. Ef við skoðum hversu mikið hefur drepist í kvíum hjá sjókvíaeldisfyrirtækjunum þessi síðustu tvö ár þá er þetta farið að slá upp í fjörutíu prósent af fiski sem er settur í kvíarnar sem drepst áður en það kemur að slátrun. Þetta eru fjórir fiskar af tíu sem nær ekki slátrun og drepst eða þarf að farga.“
Met slegið ár eftir ár
Á síðasta ári var slegið met í förgun og affalli í sjókvíaeldi sem verður seint toppað en þá hafði í raun verið slegið met ár eftir ár fram að því.
„Þróunin hér hefur verið þannig að hvert ár hefur verið verra en það sem á undan fór. Þetta ár verður það líklega ekki en það er því að árið í fyrra var svo hrikalegt vegna lúsarfaraldursins í Tálknafirði. Þá þurftu þeir að farga í einum mánuði 1,7 milljón laxa vegna lúsaskaða í október. Desembermánuður er ekki kominn inn á vefsíðuna en það verður ekki slegið enda er þetta líka alveg nógu hrikalegt.“
Langmestu afföllin urðu í nóvember þegar 635.775 fiskar drápust en þá var 20.120 fiskum fargað. … Jón segir að meirihlutann í nóvember hafi drepist í Fáskrúðsfirði.
„Meirihlutinn í Fáskrúðsfirði hjá Kaldvík þegar um 434.000 eldislaxar drápust nokkrum dögum eftir að þeir voru settir í kvíarnar. Það er á við um sjöfaldan fjölda alls íslenska villta laxastofnsins. Þetta hýtur að vera meiriháttar fjárhagslegt áfall fyrir Kaldvík. Fyrir utan dýravelferðarmartröðina.“
Í febrúarmánuði voru afföll 525.571 fiskar en 47.654 fiskum var fargað.
„Skýringarnar þá voru útsetning smárra seiða í október 2024 og í kjölfarið frekar kaldur vetur fyrir vestan sem olli vetrarsárum og eins var víst sníkjudýrið parvicapsula pseudobranchicola skætt í kvíunum fyrir vestan,“ segir Jón um febrúar mánuð.
Hér til hliðar má sjá töflu með heildartölu fyrir afföll og förgun fyrir árið.