Við mælum með þessari grein Gunnlaugs Stefánssonar sem birtist á Vísi:
„En reynslan í nágrannalöndum staðfestir, að mesta ógnin stafar af seiðasleppingum úr kvíum sem síðar verða kynþroska fiskar og þekkjast ekki ómerktir frá villtum laxi í veiðiánum. Þá er opinbert eftirlit með eldinu í molum. Eldisiðjan á að hafa eftirlit með sjálfri sér og tilkynna ef eitthvað fer úrskeiðis. Er það trúverðugt? Enda er Ísland eins og paradís fyrir útlenska eldisrisa sem eru á flótta með opna eldið vegna skelfilegrar reynslu fyrir villta fiskistofna og umhverfið í heimabyggð. Svo fá þeir leyfin á Íslandi ókeypis ofan á allt saman.
Þetta finnst lífeyrissjóðnum Gildi harla gott og ætlar að ausa þremur milljörðum af lífeyrissparnaði launafólks ofan í eldishítina og eignast 6% hlut í norskri eldisiðju sem sjóðurinn mærir fyrir „sjálfbærni, gæði og virðingu fyrir umhverfinu“. Þetta hljómar eins og besta skaup.
Hvers konar „fagmennska“ liggur hér að baki eða er allt boðlegt fyrir skammtímagróðann?
Hvað getur hamið græðgina gegn náttúrunni?
Þess verður skammt að bíða, að Ísland verði að athlægi utan landsteinanna fyrir nýlenduhegðun útlenskra eldisrisa og undirlægju stjórnvalda gagnvart sjókvíaeldinu.“