Héraðsfréttamiðillinn Feykir greindi frá því að hnúðlax hefði veiðst í Djúpadalsá í Blönduhlíð. Þetta er ekki fyrsta skiptið sem hnúðlax er dreginn á land úr íslenskri laxveiðiá.
Sjálfsagt hefur aldrei áður veiðst jafn mikið af hnúðlaxi í íslenskum ám og nú í sumar. Þetta er slæm þróun. Hnúðlaxinn er skilgreindur hér sem ágeng tegund, eins og víðast hvar um Evrópu, enda keppir hann í ánum um æti og óðul við villta laxinn okkar.
Ekki er enn vitað hvort hnúðlaxinn hafi náð að mynda hér stofna en sterkar vísbendingar eru þó um að klak hafi tekist. Hnúðlaxinn er Kyrrahafslax en hann fór að nema land í Evrópu eftir eldistilraunir Rússa í ám við Atlantshafið. Hnúðlaxinn hefur þegar komið sér fyrir í ýmsum norskum ám og hefur verið að færa sig þar mjög upp á skaftið suður eftir ströndinni.
Vaxandi styrkur þessarar ágengu tegundar í íslenskum ám er enn einn þátturinn í að gera umhverfi okkar villtu laxastofna fjandsamlegra. Loftslagsbreytingar og súrnun sjávar hefur aukið mjög álag á þá nú þegar. Aukið sjókvíaeldi hér við land mun svo gera tilveru þeirra enn erfiðari. Jákvæðu fréttirnar í þeim efnum eru hins vegar að ólíkt því sem gildir um hnúðlaxinnn og loftslagsbreytingarnar höfum við Íslendingar sjálfir í hendi okkar að hafa áhrif á það hvort sjókvíaeldi verði hér á iðnaðarskala, með tilheyrandi tjóni fyrir umhverfið og lífríkið. Eina leiðin til að koma í veg fyrir slíkt tjón er að banna opið sjókvíaeldi, eins og stjórnarflokkur Kanada hefur boðað að verði gert þar í landi fyrir árið 2025.
Þá hlýtur að mega gera ráð fyrir því að nýtt áhættumat Hafrannsóknastofnunar, sem vænta má á næstu misserum, taki tillit til hnúðlaxaplágunnar og herði á áhættumatinu gagnvart sjókvíaeldinu. Við þessar aðstæður má ekki auka á áhættuna gagnvart villta laxinum okkar.