Það er ansi langt seilst að kalla eldislax sem er alinn á sojabaunum og litarefnum til að holdið verði bleikt „100% náttúrulega“ afurð. Þetta leyfa sér þó framleiðendur íslensks drykks sem Stundin fjallar um.

Eldislaxinn fá framleiðendurnir frá Mowi, stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki heims, sem er með sektarslóð á eftir sér nánast alls staðar þar sem það starfar.

Þetta er líka fullt tilefni til þess að rifja upp að aðeins eru nokkrar vikur frá því að Mowi þurfti að fjarlægja orðin „sjálfbær“ og „umhverfisvænn“ af umbúðum eldislax sem seldur er í Bandaríkjunum og borga 1,3 milljón dollara, eða sem nemur 169 milljónum króna, til að forða sér frá dómsmáli.

Mál var höfðað á hendur Mowi á þeim grundvelli að fyrrnefndar merkingar væru „falskar, misvísandi og blekkjandi“.

Fyrirtækið kaus að semja utan dómssalar og hætta þegar í stað að merkja umbúðir með þessum orðum, enda er eldislax alinn í sjókvíum alls ekki sjálfbær eða umhverfisvæn matvara. Þvert á móti er þessi framleiðsluaðferð skaðleg fyrir náttúruna og lífríkið.

Sjókvíaeldi á laxi er eina dýrapróteinframleiðslan á iðnaðarskala sem skaðar villta stofna með erfðablöndun. Það helspor sjókvíaeldisins eitt og sér ætti að duga til þess að þessi framleiðsluaðferð væri bönnuð.