Árni Baldursson birti í gær þennan kröftuga pistil til varnar villtum laxastofnum:

„Villti laxinn er raunverulega í útrýmingarhættu!
Ég hef verið að ferðast víða um Evrópu og Kanada til að veiða lax síðustu 30 árin. Á þessum tíma hefur ástandið á laxinum farið æ versnandi og honum fækkað ár frá ári. Núna frá því snemma í vor hef ég verið í Skotlandi í nokkrar vikur, þar er ástandið þannig að laxveiðin sumarið 2018 var sú versta í sögu Skotlands í yfir 60 ár og núna vorið 2019 er staðan ennþá verri! Síðustu daga hef ég verið að veiðum í Írlandi, þar er sama uppi á teningnum, sem dæmi af einni bestu laxveiðiá Írlands, Blackwater, þar hefur veiðin aldrei verið minni frá upphafi skráninga. Við erum að tala um 80% hrun í vorlaxastofni árinnar síðustu árin. Sömu sögu er að segja frá flestum öðrum ám Írlands. Rússland … þar hefur veiðin hrunið síðustu 4 árin. Í Noregi er sama sagan, þar er mikil hnignum í laxastofnunum. Skýringar eru nokkrar, t.d. að netaveiðum var hætt allt allt of seint og hrikalegt magn af sjóeldiskvíum sem ógna villtum laxastofnum. Nú er netaveiðum að mestu hætt … en of seint, það er hreinlega búið að ganga allt of nærri stofnunum í marga áratugi. Hér heima á Íslandi hreykjum við okkur af því að við séum „ Mekka „ laxveiðinnar, en hægan hægan það er hætt við að verði ekki lengi. Ákveðið hefur verið að fara eins að og nágrannalönd okkar gerðu og opna upp alveg glórulaust laxeldi í sjóeldiskvíum víða í okkar fallegu fjörðum. Hingað til lands má ekki koma með plöntur erlendis frá, ekki flytja inn hunda nema þeir séu 4 vikur í sóttkví, ekki hrátt kjöt, en það er í lagi að flytja inn norskan eldislax sem sleppur reglulega úr kvíunum og því miður oft í miklu magni. Þessi norski lax gengur svo í árnar okkar og blandast okkar íslensku stofnum, ber með sér gríðarlegt magn af lús. Margt fólk bæði í Evrópu og víðar um heiminn kynnir sér þessi mál ákaflega vel og fylgist grannt með því sem er að gerast hér heima á Íslandi. Þetta fólk er svo agndofa yfir heimsku okkar Íslendinga og virðingarleysi fyrir okkar náttúru, sem við viljum endilega telja öðrum og okkur sjálfum trú um að sé hin hreinasta í heimi! Margir hreinlega tárast þegar verið er að tala um þessi mál, enda tær náttúra á algeru undanhaldi í heiminum og við ætlum sömu leið og of margir aðrir með okkar. Hvernig getum við verið svona heimsk … já já það er talað um milljarða og milljarða, sem er hlálegt í samanburði við verðmæti íslensku náttúrunnar og laxveiðistofnana okkar. Það eru óafturkræf verðmæti sem ekki er einu sinni hægt að reikna út … svo mikið verður tjónið.

Þá er og ástæða til að fara yfir það að enn eru netaveiðar á villtum laxi stundaðar af fullum krafti á Íslandi, nokkuð sem enginn trúir að sé að gerast á 21 öldinni. Á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár eru stundaðar svo kröftugar netaveiðar að það er með ólíkindum. 17 net klóra upp og drepa árlega 60% af öllum laxi sem er skráður til bókar á þessu víðfeðma laxasvæði, sem er eitt það stærsta í allri Evrópu. Það eru á þriðja hundrað landeigenda í Veiðifélagi Árnesinga, skiptingin á aflanum er þannig að 17 landeigendur leysa til sín að meðaltali 60% af heildarveiðinni í net og u.þ.b 200 landeigendur þar sem veitt er á stöng 40%. Þar sem stangveiði er stunduð hafa landeigendur haft þann hátt á að láta sleppa sem allra mestu af laxinum aftur í ána til að gæta þess að sæmileg hrigning og uppeldi á seiðum sé í ánum til viðhalds á laxastofnum þeirra. Þess má geta að sleppihlutfallið á sumum þessum stangaveiddu svæðum er upp í 80 til 90%. Heimtur á örmerkjum úr veiddum löxum sýna að 60 til 70% af örmerktum löxum koma úr netum, það eru skuggalegar tölur. Til að bíta höfuðið af skömminni þá er landeigendum stangaveiðijarðanna gert að reka Veiðifélag Árnesinga og sjá um alla fjármögnun til þess, stangaveiðihluti Veiðifélags Árnesinga er gert að leggja til árlega 4 til 5.000.000 miljónir á ári til rekstur félagsins. Netaveiðbændur sem veiða 60% af aflanum þurfa ekki að borga neitt til rekstur félagsins, og ekki leggja þeir til neitt til fiskiræktar á svæðinu á móti þessum 2000 til 4000 löxum sem þeir drepa árlega. Rök netaveiðibænda eru þau að þeir taki upp net sín í 10 daga í ágúst á hverju ári, ( laxinn er að mestu hættur að ganga um miðjan Ágúst þannig að það er lítil friðun að taka upp net á þessu tíma ) en það skilar engu fé til reksturs Veiðifélagsins. Að mínu mati er þetta hróplegt óréttlæti og þá sérstaklega vegna náttúrunnar. Það eru engar hömlur á þessum netaveiðum, engir kvótar engin veiðistjórnun, hvar er eiginlega Hafrannsóknarstofnun / Fiskistofa / Veiðimálastofnun … finnst ykkur þetta bara vera í góðu lagi ? .. Þið eruð búin að loka augunum fyrir þessu í áratugi og þið verðið núna að taka á þessu laxadrápi áður en það er orðið allt of seint og verður aldrei endurbætt. Ef ekki er hægt að ná þessum netum upp, þá í það minnsta komið á veiðistjórnun og setjið kvóta á drepna laxa eins og gert er í stangveiðihlutanum. Allur heimurinn fylgist með Íslandi þessa dagana, við erum síðasta landið sem erum ennþá með þokkalegar laxagöngur en stöndum nú frammi fyrir því að vera að ganga allt of nærri laxastofnunum með laxeldi í sjó og netaveiðum á vatnasvæðum Ölfusá og Hvítár, af hverju í ósköpunum erum við tilbúin að fórna þessu öllu fyrir peninga? Hversu gáfulegt er það að drepa villtan lax í net og selja hann fyrir 1000 kr. kílóið? Það er algert óafturkræft umhverfis slys væntanlegt á næstu misserum. Árni Baldursson. Myndin er af Hólmasvæðinu í Stóru Laxá svæði 4.“