Framvirkir samningar í Noregi gefa til kynna að verð á laxi haldi áfram að lækka næstu fjögur árin.

Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins:

“Eftir látlausar verðhækkanir á eldislaxi árið 2016 tók verðið að lækka í fyrra. Kílóverð á eldislaxi hefur fallið um ríflega þriðjung í norskum krónum frá því það var hvað hæst í byrjun árs 2017. Framvirkir samningar á Fish Pool markaðinum í Noregi gefa jafnframt til kynna að verð á laxi haldi áfram að lækka næstu fjögur árin. …

Samkvæmt sérstakri laxavísitölu Nasdaq fór verð á eldislaxi í hæstu hæðir seinni hluta árs 2016. Var kílóverðið um tíma um 80 norskar krónur. Síðan þá hefur verðið hins vegar farið hríðlækkandi og er nú um 54 norskar krónur. …

Framboð á heimsmarkaði dróst verulega saman vegna hremminga í framleiðslunni í Noregi og Síle. Löndin hafa hins vegar náð vopnum sínum og hefur framboðið aukist að nýju. Telja margir greinendur því viðbúið að verðið muni halda áfram að lækka. „Þegar við sjáum fram á að framboðið verði meira í ár en í fyrra skapast eðlilega ótti um að í vændum sé verðleiðrétting,“ segir Lage Bogren, greinandi hjá bankanum Carnegie.

Verðfallið á síðustu mánuðum hefur jafnframt stuðlað að lækkandi gengi hlutabréfa í norskum fiskeldisfyrirtækjum, en nokkur þeirra eiga ráðandi hlut í íslenskum fiskeldisstöðvum. Hlutabréf í þeim fiskeldisfyrirtækjum sem skráð eru á markað í Ósló hafa sem dæmi lækkað að meðaltali um 15 prósent í verði frá því um miðjan októbermánuð í fyrra.”