Skoðanakönnunin sem birtist í vikunni sýnir okkur að um tvöfalt fleiri eru neikvæðir gagnvart eldi á laxi í opnum sjókvíum en eru jákvæðir. Hlutföllin eru 45% gegn 23%. Um þriðjungur hefur ekki gert upp hug sinn.

Í umhverfi þar sem andstæðar fylkingar takast hart á getur verið gagnlegt að skoða hvað hlutlausir aðilar hafa að segja um efnið. Einn slíkur aðili er erfðanefnd landbúnaðarins sem er skipuð fulltrúum frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Skógræktinni.

Erfðanefndin skilaði á dögunum umsögn um frumvarp sjávarútvegsráðgherra til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Þar er ítrekuð ályktun nefndarinnar frá júní 2017 þar sem kom fram að nefndin leggst gegn notkun á frjóum, norskum eldislaxi í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. „Sú afstaða var rökstudd og hefur ekki breyst enda m.a. í samræmi við varúðarreglu náttúruverndarlaga og stefnu ríkja eins og Noregs, Kanada og Bandaríkjanna um eldi framandi stofna,“ segir í umsögninni.

Eftir að hafa fært þá grundvallarafstöðu til bókar bendir erfðanefndin á ýmsa vankanta á frumvarpinu í ítarlegri umsögn sinni. Hér eru nokkrir af þeim punktum.

1) Áhættumatið – allir laxastofnar
„Að mati erfðanefndar verður að taka alla laxastofna með í áhættumat erfðablöndunar. Laxastofn getur verið ein stofneining eða fleiri skv. líffræðilegum skilgreiningum. Ef ákveðin svæði með laxastofnum eru undanskilin er hætta á að þeir laxastofnar skaðist vegna erfðablöndunar og ekki er sjálfgefið að náttúruverndarlög grípi inn þar sem þau einhverra hluta vegna virðast ekki hafa mikið vægi í umræðunni varðandi umhverfismál fiskeldis. Ef laxastofnar á ákveðnum svæðum eru undanskildir í áhættumatinu er hætta á að líffræðilegur fjölbreytileiki tapist.“

2) Um samráðsnefndina
„Skipun nefndarinnar gefur til kynna að ekki er um að ræða faglega ráðgjafarnefnd heldur nefnd hagsmunaaðila sem hafa misjöfn viðhorf til áhættumats Hafrannsóknastofnunar. Eðlilegra er að fagleg ráðgjafarnefnd sé skipuð aðilum með fagþekkingu t.d. frá Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og erfðanefnd landbúnaðarins. Slík nefnd hefur betri forsendur til að meta forsendur áhættumatsins út frá gögnum Hafrannsóknastofnunar en nefnd hagsmunaaðila.“

3) Um endurskoðun áhættumats
Í 7. gr. frumvarps (Áhættumat erfðablöndunar) segir: ,Áhættumat skal endurskoða svo oft sem þörf þykir enþó eigi sjaldnar en áþriggja ára fresti.“

Að mati erfðanefndar landbúnaðarins er þessi tilhögun ekki ásættanleg.

4) Ekki nota frjóan framandi stofn
„Erfðanefnd landbúnaðarins telur að ekki eigi að nota frjóan framandi laxastofn í sjókvíaeldi á Íslandi. Breytingarnar á frumvarpinu, sem erfðanefnd landbúnaðarins leggur hér til, tryggja hins vegar betur stefnu ríkisstjórnarinnar í fiskeldi eins og hún birtist í stjórnarsáttmála, sbr. stefnuyfirlýsingu:

„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað.““

Hlekkur á umsögn erfðanefndarinnar í heild er hér meðfylgjandi.

Sjá umsögnina á vef Alþingis.