„Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun kemur fram að stofnunin telji að Arnarlax þurfi að starfa í samræmi við ákvæði beggja leyfa, rekstrarleyfis og starfsleyfis, og mælir ekki með því við ráðuneytið að undanþága vegna hvíldartíma verði veitt.“

Mjög mikilvægt er að fá fram þessa afstöðu Umhverfisstofnunar. Það hefði sætt furðu ef stofnunin hefði blessað brot Arnarlax á þeim ákvæðum sem félagið hefur undirgengist að starfa eftir.

Það er ekki að ástæðulausu að laxeldi í opnum sjókvíum er flokkað sem „mengandi starfsemi“ og þarf að sæta eftirliti frá Umhverfisstofnun.

Í frétt RÚV segir:

“Á hvíldartíma er gert ráð fyrir því að náttúrulegt niðurbrot úrgangs sjái um að eyða hugsanlegri uppsöfnun úrgangs undir kvíum. Landeigendur í Arnarfirði gerðu því athugsemd þegar Arnarlax setti ný seiði í kvíar sínar við Hringsdal einungis þremur mánuðum eftir að slátrað var í mars. Gerðu þeir kröfu um að sá sem sér um rekstur yrði látinn hætta setja út seiði og flytti burt þau seiði sem þegar væru komin í kvíarnar svo að svæðin fengju fullan hvíldartíma samkvæmt starfsleyfinu.”