Eins og kemur fram í þessari grein Bubba hefur Arnarlax tvisvar í haust fengið leyfi til að nota fóður blandað því sem MAST kallar lyf gegn laxalús.

Það sem kemur ekki fram í greininni er að áður hefur Arnalax fengið leyfi hjá MAST til að hella beint í sjóinn skordýraeitri í baráttunni við lúsafárið í kvíunum.

Bubbi segir í greininni sem birtist í Fréttablaðinu í dag:

“Arnarlax hefur í tvígang fengið heimild til að nota eiturblandað fóður gegn fiski- og laxalús. Eitrið heitir Slice vet. og er virka efnið í því Emamektinbenzoat. Lyfinu var blandað í laxafóður frá fóðurverksmiðjunni Skretting As í Noregi í hlutföllunum 2,15 kg af lyfi í hvert tonn af fóðri. Þetta var síðan gefið laxinum í vikutíma.

Fyrra leyfið var veitt í september 2018 til fóðrunar á laxi í Steinanesi og alls gefin 480 tonn af eiturblönduðu fóðri. Seinna leyfið var veitt í október sl. til fóðrunar á laxi í kvíum við Hringsdal í sama firði. Alls voru þá gefin 97 tonn af eiturblönduðu fóðri.

Þetta er hollustan sem boðið er uppá, gott fólk. Þetta eitur fer út í lífríkið. Þetta eitur fer í fuglana, í börnin okkar, okkur sjálf, fyrir utan þá gríðarlegu mengun sem fylgir þessu opna eldi. Almenningur gerir sér kannski ekki grein fyrir því en Norðmenn skeyta ekkert um strendur Íslands, firði eða annað. Þeir gera það sem þarf að gera til þess að hagnast. Starfsmannaleigur sjá um mannskap, þeir sjá svo sjálfir um að hirða hagnaðinn.”