Staðfest hefur verið að eldislaxinn sem veiddist í Vatnsdalsá í haust kom úr sjókví Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði. Vegalengdin sem fiskurinn synti frá kvíastæðinu í Vatnsdalinn er um 270 kílómetrar. Engin spurning er um að mun fleiri fiskar hafa gengið upp í ár víða um land en þessir sem hafa veiðst. „Toppurinn á ísjakanum,“ sagði Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, þegar þessi fiskur kom á land.

Eldislaxar ganga gjarnan upp í ár seint á haustin þegar veiði er lokið og taka auk þess illa flugu í veiði. Þekkt er þegar gríðarlegur fjöldi eldislaxa gekk í Laxá í Kjós fyrir um þremur áratugum eftir að gat kom á kví sem var í Hvalfirði, þá tóku þeir ekki flugu en þegar einhverjum datt í hug að líkja eftir fóðurbitunum og beita maísbaunum þá hrúguðust þeir á land.