Í gærkvöldi bauð Vitafélagið upp á umræðufund þar sem Jón Kaldal, fulltrúi IWF, og Einar K. Guðfinnsson, frá Landssambandi fiskeldisstöðva, tókust á um áhrif opins sjókvíaeldis á norskum eldislaxi til lengri og skemmri tíma.

Í líflegum umræðum með fundargestum eftir erindi Jóns og Einars K, var meðal annars rætt um tæknina við sjókvíaeldið.

Gerði einn talsmanna sjókvíaeldisfyrirtækjanna, sem var viðstaddur fundinn, athugasemd við að orðalagið netpoki í sjó væri notað um þá tækni. Af því tilefni er rétt að færa til bókar að það orðalag er tekið úr lagafrumvarpi um fiskeldi: „Kví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir við yfirborð lagar.“

Svona er þetta og má lesa svart á hvítu í frumvarpstextanum.

Það er ekki að ástæðulausu sem talsmenn sjóvíaeldisfyrirtækjanna reyna að rugla umræðuna um þessa tækni því í grunninn er hún óbreytt frá því eldi á fiski í sjó hófst fyrst. Enn hvílir hún á netpoka sem er sökkt í sjó. Og eins og er alkunna þá er ekki spurning um hvort net geti rifnað heldur aðeins hvenær þau rifni.