Norska dýralæknastofnunin sendi á dögunum frá sér svarta skýrslu um stöðu heilbrigðismála í fiskeldi í Noregi. Þar kemur meðal annars fram að ekkert gengur að ná tökum á gríðarlegum fiskidauða í laxeldissjókvíum við landið.

Í fyrra sagði Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, brýnasta verkefni norsks laxeldis vera að stemma stigu við laxadauða, ástandið væri óásættanlegt. Féllu þau orð í kjölfar upplýsinga um að 53 milljónir laxa hefðu drepist í sjókvíum við landið árið 2017, sem var svipað magn og 2016 en nú er komið í ljós að ástandið skánaði ekkert 2018.

Um 44 laxar drepast í sjókvíunum fyrir hvert tonn sem framleitt er í Noregi. Hér á landi er gert ráð fyrir að árleg framleiðsla í sjókvíum geti mest orðið 71 þúsund tonn, verði heimildir Hafró fullnýttar. Það þýðir að um 3,1 milljón laxa muni drepast hér á hverju ári, sé miðað við reynslu Norðmanna.

Engin ástæða er til að ætla að fiskidauðinn verði minni. Líklega verður hann enn meiri því sjórinn er mun kaldari hér en við Noreg.

Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa upplýst að þau gera ráð fyrir um og yfir 20 prósent fiskidauða í rekstri sínum. Það segir mikið um þennan búskap að þeir sem að honum standa telji ásættanlegt að svo hátt hlutfall eldisdýra lifi ekki af aðstæðurnar sem þeim eru búnar.