Styrktarsamningur Arnarlax við kokkalandsliðið kom öllum á óvart, og hefur vakið hörð viðbrögð. Skv. umfjöllun RÚV:

„Þetta snýst um sjálfbærni, jákvæða ímynd liðsins, verndun náttúru Íslands og því að tengja okkur við fyrirtæki sem eru fyrirmyndir þannig að við séum fyrirmyndir,“ segir Ylfa Helgadóttir, kokkalandsliðsmaður. Fjórtán matreiðslumeistarar í kokkalandsliðinu hafa sagt sig úr því í mótmælaskyni við þá ákvörðun stjórnarinnar að gera samstarfssamning við Arnarlax.

Ylfa segir í samtali við fréttastofu að samningurinn hafi komið liðinu á óvart. „Samningurinn er líklegast gerður í góðri trú en viðbrögðin frá samfélaginu eru svipuð og innan liðsins. Liðið er ekki alltaf meðvitað um hvaða samninga er verið að búa til. Þegar þetta var gert opinbert var þetta jafn mikið sjokk fyrir liðsmenn og það var fyrir aðra í geiranum,“ segir hún.“