Við heyrum reglulega frá sjókvíaeldismönnum að landeldi sé ekki fjárhagslega raunhæf aðferð við laxeldi. Á sama tíma berast þau tíðindi frá ýmsum öðrum löndum að eldið er einmitt að færast upp á land í vaxandi mæli.

Við höfum áður bent á fréttir frá til dæmis Bandaríkjunum þar sem er verið að ljúka framkvæmdum við tugþúsunda tonna landeldi. Hér bætist við glæný frétt frá Noreg um nýja landeldisstöð sem verður engin smásmíði.

Í Romsdal mun rísa stærsta landeldisstöð Evrópu með framleiðslugetu upp á 30 þúsund tonn á ári. Til að setja þá tölu í samhengi þá er það meira magn en var framleitt hér á landi í fyrra.

Auðvitað eru áform um landeldi byggð á traustum viðskiptalegum forsendum. Stofnkostnaðurinn er vissulega meiri, en til lengri tíma er landeldið hagkvæmur kostur. Umhverfið er stöðugra, laust við laxalús og minni hætta á sjúkdómum, sem skilar sér aftur í mun betri velferð eldisdýra og því hreinni og betri framleiðslu.