Áhugavert að lesa sýn hagfræðings á aukið laxeldi á Íslandi. Í grein sinni í Fréttablaðinu í dag segir Þröstur Ólafsson m.a.

“Allt fram á síðustu ár hefur þjóðin einnig verið fullvissuð um að virkjanir spilltu lítið og stóriðjan mengaði ekki. Reynslan hefur kennt okkur annað. Við áttum að verða rík af fyrrnefndri starfsemi. Landsvirkjun hefur til skamms tíma verið með bágborna eiginfjárstöðu eftir sextíu ára orkusölu til stóriðju. Stóriðjufyrirtækin sjálf skilja lítið annað eftir en laun þeirra sem þar vinna. Já, ég fullyrti að líkt væri á komið með laxeldið.

Hinn raunverulegi virðisauki sem myndast á seinni vinnslustigum yrði eftir erlendis. Þar að auki hefur stóriðja notið mikillar opinberrar fyrirgreiðslu í aðstöðu og niðurgreiðslu bæði í orkuverði og sköttum. Því er haldið dyggilega áfram á Húsavík. Það getur verið virðingarvert að leggja sig fram um að skapa ný störf. Í landinu er þó meira en næg atvinna. Sú viðleitni verður þó fyrir miklum hnekki ef fórnarkostnaðurinn er meiri en ávinningurinn. Við sem af veikum mætti erum að benda á að verjast þurfi frekari átroðslu á náttúruna, lítum svo á að hún megi ekki við frekari ágengni.

Við megum ekki með neinu móti halda starfi Geirmundar heljarskinns áfram. Jörðin og landið okkar eru komin að eigin þolmörkum. Það var inngangurinn að grein minni og inntak um leið.”

https://www.facebook.com/icelandicwildlifefund/photos/a.287660261701544/291146701352900/?type=3&theater