Þetta eru hroðalegar fréttir. Stjórnarformaður Arnarlax staðfestir að gert sé ráð fyrir allt að 20 prósent „afföllum“ í áætlunum fyrirtækisins. Hverslags búskapur er það þar sem gert er ráð fyrir að 20 prósent af dýrum lifi ekki af þær aðstæður sem þeim er boðið upp á?

Það sem dró eldisfiska Arnarlax til dauða er nýrnaveiki, aðferðirnar við að ná þeim upp úr kvíunum og kuldinn í sjónum.

Gera má ráð fyrir að um 200 þúsund fiskar hafi drepist í þessum hörmungum en í heildina hafa 1.000 tonn af eldislaxi drepist á þessu ári hjá Arnarlaxi.

Til samanburðar er allur hrygningarstofn íslenska villta laxastiofnsins um 40 þúsund fiskar. Skv. Umfjöllun Stundarinnar:

“Um 500 tonn af dauðum eldislaxi voru hreinsuð upp úr eldiskvíum Arnarlax í Tálkna- og Arnarfirði í síðustu viku. Þetta segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, í samtali við blaðið. „Í mínu höfði eru þetta sirka 500 tonn sem komu upp í síðustu viku. Dauðinn getur hafa gerst á tíu til fimmtán dögum þar áður. Við vitum ekki nákvæmlega hvenær laxinn drepst.“ Kjartan segir að laxarnir hafi verið á bilinu 2 til 3 kíló að þyngd að meðaltali. Ef gert er ráð fyrir að laxarnir hafi verið 3 kíló að þyngd má áætla að tæplega 170 þúsund laxar hafi drepist hjá Arnarlaxi í síðustu viku. “