Landeldi er víða í uppbyggingu, hér á Íslandi og í öðrum löndum. Í frétt RÚV af þessu metnaðarfulla verkefni um 5.000 tonna landeldi í Þorlákshöfn er merkilegur kafli sem varpar ljósi á þá furðulegu stöðu að þeir sem stunda sjókvíaeldi komast upp með að láta allt skólp frá starfsemi sinni vaða óhreinsað í sjóinn á sama tíma og almenn lög og reglur um mengunarvarnir gilda um þá sem eru með starfsemi á landi.

Í fréttinni kemur fram að Skipulagsstofnun gerir kröfu um að ítarlega verði gerð grein fyrir frárennsli og hreinsun þess áður en það fer út frá fyrirhugaðri landeldistöð í Þorlákshöfn og „hvernig kröfur reglugerðar um fráveitur og skólp verði uppfylltar. Skýra þurfi sömuleiðis frá áformum um nýtingu seyru.“

Auðvitað eru þetta fullkomlega eðlilegar kröfur, þær hinar sömu og annað húsdýrahald á landi þarf að uppfylla. Af hverju annað gildir um sjókvíaeldi er afar sérstakt.

Rétt er að rifja upp að miðað við tölur frá norsku Umhverfisstofnuninni jafnast mengun frá hverju tonni í opnu sjókvíaeldi á laxi á við skólp frá 16 manns. Það þýðir til dæmis að mengunin frá 17.500 tonna eldi, einsog áætlað er í Suðurfjörðum Vestfjarða, er á við 280.000 manns.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir aðra matvælaframleiðendur í landinu að skoða málaferli á hendur ríkinu vegna þessa aðstöðumunar. Af hverju á sjókvíaeldi að vera undanþegið lögum um reglum um frárennsli og mengunarvarnir? Sjókvíaeldisfyrirtækin eru í eigu feikilega vel stæðra félaga. Það nær auðvitað engri átt að þau komist upp með að senda reikninginn fyrir starfsemi sinni til náttúrunnar og umhverfisins í fjörðunum þar sem þessi mengandi iðnaður er stundaður.