Í umræðum á Bylgjunni í morgun um heimildarmynd Þorsteins J. Vilhjálmssonar sagði Einar K. Guðfinnssson aðspurður um hættuna á því að eldisfiskur sem sleppur úr kví í Arnarfirði geti birtst til dæmis í Norðurá, að það væri „óumdeilt“ að sú hætta væri ekki til staðar. Þetta er rangt hjá talsmanni Landssambands fiskeldisstöðva.

Ógnin er til staðar einsog við sáum haustið 2016 þegar tók að veiðast regnbogasilungur úr sjókvíaeldi í ám. Fyrst á sunnanverðum Vestfjörðum og síðar um allt land. Ekkert fiskeldisfyrirtæki hafði tilkynnt um að fiskur hefði sloppið, eins og er þó skylt samkvæmt lögum.

Enn fremur hefur Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, bent á að allir laxastofnar landsins eru í hættu: „Þótt laxeldi sé bara heimilað á ákveðnum svæðum eru allir laxastofnar að mínu mati undir,” segir Leó í meðfylgjandi frétt sem Vísir birti í ágúst í fyrra.