Um miðnætti í gærkvöldi samþykkti Alþingi frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikil átök voru um frumvarpið. Sjókvíeldisfyrirtækin og hagsmunabaráttusamtök þeirra, SFS, lýstu yfir mikilli óánægju með það og náttúruverndarsamtökum, þar á meðal okkur hjá IWF, fannst alls ekki nógu langt gengið til verndar umhverfisins og lífríkisins.

Það segir sína sögu að hvorug fylkingin fagnar sigri nú þegar frumvarpið er orðið að lögum. Hitt er mikilvægt að með lögunum er bundinn ákveðinn endir á það villta vesturs ástand sem hefur ríkt hér í sjókvíeldinu.

Áhættumatið til verndar villtum laxastofnum hefur verið lögfest og er bindandi fyrir ráðherra, sem er lykilatriði. Sjókvíaeldislobbíið barðist hart fyrir því að áhættumatið yrði tekið úr höndum vísindafólks Hafrannsóknastofnunar og fært til ráðherra, en sem betur fer var því áhlaupi hrundið.

Ljóst er að átökum um áhættumatið er þó ekki lokið. Sjókvíeldisfyrirtækin mun halda áfram að hamast í því að þröskuldur þess verði hækkaður. Tilgangurinn er ekki síst að koma niður stórfelldu sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúp. Það má aldrei verða.