Í Noregi þar sem laxeldi í opnum sjókvíum hefur verið stundað í áratugi eru menn enn í myrkri með áhrif eldsins á ýmsa nytjastofna í hafinu. Mengunin, lúsavandinn og skaðinn vegna erfðablönduar við villta laxastofna eru þekkt en þar að auki berast böndin að laxeldinu vegna stófellds rækjudauða. Nú eru að hefjast í Noregi þessar rannsóknir, sem við höfum áður sagt frá, á áhrifum laxeldis á þorskstofninn.

Hér á Íslandi eru uppeldisstöðvar þorsksins inn til fjarða þar sem menn eru búnir að koma fyrir kvíum með milljónum laxa og vilja bæta mörgum milljónum við. Auðvitað hefur viðvera svona gríðarlegs magns af fiski mikil áhrif á lífríki fjarðanna. Afleiðingarnar eru langt í frá að fullu þekktar. Engu að síður er barist fyrir að gera þessa tilraun í íslenskri náttúru. Þetta er auðvitað algjört glapræði.

Í umfjöllun Vísis um þetta mál segir m.a.:

“Norskir sjómenn fullyrða að laxeldiskvíar í sjó fæli þorskinn burt úr fjörðunum. Nú hefur verið ákveðið að verja 45 milljónum norskra króna, eða 630 milljónum íslenskra króna, til að rannsaka hvort sjómennirnir hafi rétt fyrir sér. Rannsóknin, sem á að hefjast í janúar og á að standa í fimm ár, fer fram í þremur fjörðum í Finnmörku en niðurstöðurnar munu gagnast öðrum byggðarlögum.”