Í fréttaskýringu sem norski sjávarútvegsfjölmiðilinn Fiskeribladet birti í gær kemur fram að rækjustofnar við Noreg eru í svo slæmu ástandi að sjómenn hafa aldrei séð annað eins. Engar afgerandi skýringar eru á því hvað er á seyði en böndin berast að lúsaetiri sem notað er í gríðarlegu magni í sjókvíaeldinu.

„Rækjan er í svo slæmu ásigkomulagi að hún er varla lifandi þegar hún kemur inn fyrir borðstokkinn,“ segir sjómaðurinn Arne Larsen í frétt Fiskeribladet en þar kemur líka fram að skelin er nánast laus á rækjunni, hún sé lin og hausinn detti henni af undan eigin þunga.

Þetta eru skelfilegar lýsingar og norskur sjávarútvegur vill eðlilega fá svör við hvað veldur þessu.

„Við þurfum að fá á hreint hvað er í gangi og af hverju lífsskilyrði rækjunnar við ströndina eru svona slæm. Laxeldisfyrirtækin hljóta að koma að þessum rannsóknum. Það er mikið í húfi fyrir þau að sanna að sökin liggur ekki hjá þeim, eins og þau halda sjálf fram,“ segir Larsen.

Í frétt Fiskeribladet er líka rætt við Guldborg Søvik, vísindakonu hjá norsku Hafrannsóknarstofnuninni, sem segir að það sé þekkt í tilraunum að efnin sem eru notuð gegn laxalúsinni hafi slæm áhrif á rækjuna (lúsin er líka skeldýr), en ekki séu til afgerandi niðurstöður úr rannsóknum á vettvangi.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að almennt sé alltof lítið vitað um áhrif sjókvíaeldis á villta stofna í sjónum við Noregi sem sé mikið áhyggjuefni.

Norðmenn eru sem sagt í stökustu vandræðum með laxeldi við strendur sínar. Rækjan og aðrir fiskistofnar eiga undir höggi að sækja og óttast er að það sé afleiðing mengunar (lúsaeitur, rotnandi fóður og saur) frá sjókvíum. Og þessa tilraunamennsku vilja íslenskir sjókvíaeldismenn nú hefja í hafinu hér.

(Athugið að áskrift þarf til að lesa fréttina í Fiskeribladet)