Engar kvaðir eru hér á landi um að sjókvíaeldisfyrirtækin þurfi að þrífa upp eftir sig í núgildandi lögum um fiskeldi né í nýju frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Þau fá algjörlega frítt spil til að láta allan úrgang frá starfsemi sinni fara beint í sjóinn. Þetta er fráleit tímaskekkja. Það er löngu vitað að hafið getur ekki tekið við öllu því skólpi sem dælt er í það án alvarlegra afleiðinga fyrir umhverfið.

Í grein Stundarinnar er bent á að í sænskum náttúruverndarlögum er tekið fram að í iðnaði sem spillir umhverfinu skuli ætíð notast við „bestu mögulegu tækni“ sem minnstu umhverfisáhrifin hefur og er vísað til þessara laga í dómunum.

“Kostnaður við að þrífa hafsbotninn eftir 20 ár af sjókvíaeldi úti fyrir austurströnd Svíþjóðar getur numið rúmlega 1800 milljónum króna. Sjókvíaeldi á regnbogasilungi á svæðinu, úti fyrir Höga Kusten í Eystrasaltinu, var bannað vegna umhverfisáhrifa þess með fjórum dómum í Svíþjóð árið 2017. Um þetta er fjallað í sænskum fjölmiðlum en eldisfyrirtækið sem á umræddar sjókvíar í Mjältösundet, Öberget og Omnefjärden í Höga Kusten á að fjarlægja kvíarnar á næsta ári.”