Neikvæð staða lífríkis á botni Tálknafjarðar, mikill laxadauða í kvíum, umfang lúsa­vandans og skortur á þjálfun starfsfólks eru meðal atriða sem valda því að sjókvíaeldisstöð Arnarlax uppfyllir ekki alþjóðlega gæðavottun um umhverfisvæna sjávarvöruframleiðslu.

Fyrr á þessu ári sagðist Kristján Matthíasson, hjá Arnarlaxi, reikna með að fá umhverfisvottun frá ASC á fyrri helmingi ársins 2018. „Við erum búin að vinna að því í næstum því ár, en það er mikil vinna.“ (Fiskifréttir 21. 01. 2018).

Það er ekki traustvekjandi að þrátt fyrir þessa miklu vinnu sem Kristján talar um fellur fyrirtækið svo á prófinu sem það sjálft óskaði eftir og greiddi fyrir.

Skv. umfjöllun Fréttablaðsins:

“Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðasta mánuði gerði vottunaraðilinn alvarlegar athugasemdir við fjölmargt í framleiðsluferli eldisins sem uppfyllir ekki skilyrði vottunarinnar. Erlendir kaupendur eldislaxins gera margir strangar gæðakröfur og var umsókn Arnarlax um vottun hluti uppbyggingar gæðakerfis hjá fyrirtækinu.

Niðurstaða úttektar vottunaraðilans var birt 27. ágúst síðastliðinn. Af henni að dæma hefur Arnarlax bætt úr ýmsu sem gerðar voru athugasemdir við í ferlinu. Aðgerðir fyrirtækisins duga hins vegar ekki til og eldið fær ekki vottun, að þessu sinni. Vísað er til stöðu lífríkis í nágrenni eldisins en mælingar á súrefnisástandi botnsjávar og fjölbreytileika og magni botndýra í nágrenni eldisins, ná ekki viðmiðum þeirra staðla sem stuðst er við. Þá er tíðni óútskýrðs laxadauða of há hjá Arnarlaxi til að uppfylla skilyrði vottunaraðilans eða 22 prósent. Að lokum fer umfang lúsavandans einnig upp fyrir leyfilegt viðmið vottunar og áhrif þess á villta laxastofninn hafa ekki verið nægilega rannsökuð.”