Skosku náttúruverndarsamtökin Salmon & Trout Conservation birtu í gær þetta martraðarkennda myndband af villtum laxi með skelfilega áverka eftir laxalús.

Samkvæmt upplýsingum frá samtökunum er stór hluti villtra laxa, sem gengu í ár við vesturströnd Skotlands í sumar, í álíka ásigkomulagi eftir að hafa þurft að synda í gegnum gríðarlegt magn af laxalús sem streymir úr laxeldissjókvíum á svæðinu. Engar líkur eru á að fiskur sem hefur orðið fyrir svona skaða lifi af.

Fjölmörg sjókvíaeldisfyrirtæki eru í sjávarlóninu Loch Roag við Lewiseyju og hafa þau átt í miklum vanda vegna lúsafárs í sumar. Fiskidauði hefur verið gríðarlegur í kvíunum og sjórinn krökkur af lús. Á leiðinni í heimaár sínar hafa villt laxarnir þurft að synda í gegnum mökkinn og þar með hafa dagar þeirra verið taldir.

Laxalús er harðgert kvikindi sem getur lifað vikum saman í sjó þar til lax verður á vegi hennar, enda getur verið langt á milli laxa í sjónum við náttúrulegar aðstæður.

Sjókvíar þar sem tugir þúsunda laxa eru saman á örlitlu svæði gerbreytir afkomumöguleikum lúsarinnar því þar þarf hún ekki að bíða eftir næsta fiski. Lúsin fjölgar sér mjög hratt við þessar aðstæður. Kvendýrin losar eggin beint út í sjóinn og geta þau skipt hundruðum í einu.

Þannig verða sjókvíar eins og gríðarlegar lúsaverksmiðjur, með ömurlegum afleiðingum fyrir eldisdýrin og villtan lax í nágrenninu. Villtu dýrin þurfa að synda í gegnum lúsaskýið til að komast í árnar og svo aftur þegar seiðin ganga til sjávar.

Lúsin heldur sig yfirleitt á hreisturlitlum eða hreisturlausum hlutum fisksins við höfðið og étur sig inn að heila í verstu tilfellum.

Sýkingartíðni villtra laxa er langt um meiri á þeim svæðum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Staðfest er að villt seiði eiga ekki afturkvæmt í ár sem hrygningarfiskur ef þau hafa þurft að synda um sjó þar sem lúsin er í miklum mæli.