Bjarni Brynjólfsson fer hér á yfirvegaðan hátt yfir hversu hættuleg hugmynd það er að hefja opið sjókvíaeldi á eldislaxi í Ísafjarðardjúpi. Góðu heilli útilokar áhættumat Hafrannsóknastofnun slíkt eldi einsog staðan er nú,. Hart er sótt að stofnuninni um að fá því breytt. Það væri ávísun á stórslys.

Í grein Bjarna sem birtist á Vísi segir meðal annars:

,,Ekki aðeins eru í Djúpinu margar ár með litla og sérstaka laxa- og silungsstofna sem munu þurrkast út á nokkrum áratugum ef laxeldi verður leyft þar, heldur er Ísafjarðardjúp gullkista allrar byggðar í landinu en þar er að finna gjöfular seiðauppeldisstöðvar margra mikilvægustu nytjastofna okkar, t.a.m. þorskstofnsins. Litlar rannsóknir hafa farið fram á þessum uppeldissvæðum og nákvæmlega ekkert er vitað um hvaða áhrif mengun og eiturefnanotkun laxeldisins mun þýða fyrir vistkerfi grunnsævisins í Djúpinu.

…Að setja niður mengandi iðnaðarlaxeldi af norskum stofni í Ísafjarðardjúpi er því vægast sagt hættulegur leikur með fjöregg þjóðarinnar. Í þaraskógum Djúpsins og lognværum innfjörðunum eru helstu seiðauppeldisstöðvar fiskistofnanna okkar. Ætla útvegsmenn þessa lands virkilega að fljóta sofandi að feigðarósi með því að styðja rask og eyðileggingu þessara frjóu uppeldisstöðva af völdum norsks sjókvíaeldis?

Við þurfum ekki að taka þessa áhættu. Förum frekar með laxeldið í land. Í Djúpinu væri m.a. hægt að hafa stórar landeldisstöðvar á Nauteyri og í Reykjanesi. Á báðum stöðum er gnægð af heitu vatni og hreinum sjó sem hægt væri að nýta fyrir eldið.”