Landvernd hefur kvartað til ESA vegna breytinga á lögum um fiskeldi.

„Síðan þótti okkur málsmeðferðin vera mjög alvarlegt brot á Árósasamningnum þar sem málið var keyrt í gegn nánast á einu kvöldi, algjörlega án umræðu þar sem umhverfisverndarsamtök höfðu engan möguleika á að koma að þessari ákvörðun,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar í samtali við RÚV.

IWF tekur heilshugar undir orð Auðar.

Skv. umfjöllun RÚV:

Fyrir rúmum mánuði samþykkti Alþingi frumvarp sjávarútvegsráðherra, sem veitir honum heimild til að veita rekstrarleyfi í fiskeldi til bráðabirgða. Tilefnið var að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrar- og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum á Vestfjörðum, auk þess að vísa frá beiðni fyrirtækjanna um frestun réttaráhrifa. Landvernd kvartaði í morgun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, vegna þessarar lagabreytingar. Samtökin telja lögin og málsmeðferðina brot á reglum EES-samningsins og brot á Árósasamningnum, sem fjallar um réttláta málsmeðferð í umhverfismálum.

„Varðandi lögin sjálf, þá er ekki gert ráð fyrir að almenningur eða samtök hafi nokkra möguleika á því að koma að ákvörðun um bráðabirgðaleyfi, sem er klárt brot á Árósasamningnum og lögin gera heldur ekki ráð fyrir því að það sé hægt að kæra bráðabirgðaleyfin þó þau geti gilt í 20 mánuði. …“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir