Við hjá IWF þökkum forsvarsmönnum Íslensku fluguveiðisýningarinnar þennan rausnarlega styrk. Það er mikil hvatning að finna fyrir því hversu margir styðja og koma með virkum hætti að baráttunni fyrir því að standa vörð um villtu laxastofnana og náttúruna á Íslandi.

“Íslenska fluguveiðisýningin, sjálfseignarstofnun, safnaði tæplega 650.000 kr. árið 2018 og mun þeim fjármunum verða varið i þágu meginmarkmiðs stofnunarinnar, sem er að standa vörð um íslenska náttúru og dýralíf með áherslu á vernd og uppbyggingu villtra ferskvatnsstofna. Stjórn Íslensku fluguveiðisýningarinnar þakkar þær frábæru móttökur sem fyrsta sýningin fékk og tilkynnir um leið að sýningin verður haldin að öðru sinni þann 14. mars 2019.

Stjórn Íslensku fluguveiðisýningarinnar hefur ákveðið að útdeila 400.000 kr. af þeim fjármunum sem söfnuðust á sýningunni árið 2018 til stofnana og sjóða sem hafa sömu eða sambærileg markmið og stofnunin.

Stjórn ályktaði enn fremur að mikilvægasta baráttumál stofnunnarinnar um þessar mundir sé að vekja athygli á skaðsemi eldis á laxi í opnum sjókvíum og að reyna að sporna við áframhaldandi aukningu á slíku eldi. Í ljósi þessa hljóta aðilar sem hafa látið sig þessi mál varða á árinu 2018 styrk frá stofnuninni að þessu sinni.

Eftirtaldir aðilar hljóta styrk vegna ársins 2018:

NASF á Íslandi – 200.000 kr.
NASF á Íslandi hefur verið áberandi á árinu 2018 í umræðum um skaðsemi sjókvíaeldis á laxi. Sjóðurinn fylgist grannt með allri lagasetningu og úrskurðum sem snýr að málaflokknum og kemur á framfæri þörfum athugasemdum. Ljóst er að NASF ætlar sér að halda áfram þeirri baráttu fyrir Atlantshafslaxinum sem náttúruverndarsinninn og baráttumaðurinn Orri Vigfússon heitinn hóf, en sjóðurinn var stofnaður í tengslum við það frumkvöðlastarf hans.

Icelandic Wildlife Fund – 200.000 kr.
Icelandic Wildlife Fund hefur verið mjög áberandi í málflutningi sínum um skaðsemi sjókvíaeldis á laxi á árinu. Þar ber helst að nefna mikil og áberandi miðlun upplýsinga til almennings og gerð kynningarefnis um skaðsemi sjókvíaeldis. Þá hefur IWF barist fyrir því að neytendur fái aðgang að upplýsingum um uppruna eldislax og komið á framfæri ýmsum valkostum fyrir neytendur sem kjósa að sniðganga lax úr opnum sjókvíum. IWF hefur einnig komið á framfæri athugasemdum við lagasetningu og úrskurði um málefnið.”

https://www.facebook.com/icelandicflyfishingshow/posts/378858376200622?__tn__=H-R