Þegar ISAVIA tók niður skiltið okkar í Leifsstöð óskaði hið opinbera félag eftir því að við myndum gera breytingar á texta þess, án þess þó að tiltaka hverju ætti að breyta.

Við hjá IWF ákváðum því að sækja leiðbeiningar til siðanefndar SÍA. Þar fengum við það álit að framsetning skiltisins væri í samræmi við siðareglur SÍA nema hvað of fast væri að orði kveðið í tveimur tilvikum. Við milduðum því orðalagið og settum inn fyrirvara en þá brá svo við að ISAVIA þvertók fyrir með öllu að skiltið færi upp aftur.

Við getum ekki sætt okkur við þá niðurstöðu mótbárulaust.

Baráttan fyrir því að vekja sem flesta til vitundar um stöðu villta laxins á Íslandi og þá ógn sem stafar að honum vegna opins sjókvíaeldis, á erindi til almennings. Við munum leita allra leiða til að koma þeim upplýsingum á framfæri sem víðast.

Skv. frétt Vísis um málið:

„Við erum búin að gera þær breytingar sem Isavia óskaði eftir þegar skiltið var tekið niður og förum ekki fram á annað en að það verði sett upp,“ segir Jón Kaldal, talsmaður IWF.

Í bréfi frá lögfræðingi IWF er þess krafist að skiltið verði sett upp í síðasta lagi í dag. Annars sjái samtökin sig tilneydd til að leita réttar síns eftir öðrum leiðum og áskilji sér einnig rétt til að krefja Isavia um bætur.”