Við hjá IWF höfum því miður þurft að takast á við ISAVIA út af auglýsingu okkar sem var tekin niður eftir að hafa verið uppi í flugstöðinni tíu daga í sumar.

Þrátt fyrir að við höfum lagfært texta í auglýsingunni, þar sem við fengum ábendingu um að of fast væri að orði kveðið, hafnar ISAVIA að setja auglýsinguna upp.

Þetta er mikið áhyggjuefni og bein atlaga að tjáningarfrelsinu.

Eldi í opnum sjókvíum er mengandi starfsemi sem ógnar umhverfi og lífríki Íslands. Mikilvægt er að vekja athygli á þessum staðreyndum.

Það getur ekki verið eðlilegt að opinbert félag megi koma í veg fyrir að umhverfisverndarfólk birti auglýsingu, sem varðar almannahagsmuni og á því erindi til almennings, í opinberu rými þar sem auglýsingar eru almennt leyfðar.

Í frétt Fréttablaðsins segir m.a.:

“Isavia hefur nú synjað uppsetningu skiltisins með þeim rökum að auglýsingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli séu nýtt til að kynna vörur eða þjónustu en verði ekki vettvangur deilna um viðkvæm og umdeild málefni. Svo segir í rökstuðningi Isavia:

„Það er ljóst að auglýsing IWF fjallar um viðkvæmt málefni sem er mikið deilumál í íslensku þjóðlífi og stjórnmálum nú um stundir. Isavia mun því ekki veita heimild fyrir því að sú auglýsing sem borist hefur frá IWF verði sett upp í flugstöðinni. Það sama gildir um allar auglýsingar sama eðlis, algjörlega óháð málefnum eða þeirri afstöðu sem fram í þeim kemur.“