Ingólfur Ásgeirsson stofnandi IWF skrifar þarfa áminningu sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í dag. Þar minnir hann okkur á að hlusta á Attenborough sem hefur varað við laxeldi í opnum sjókvíum því það ógnar villtum laxastofnum.

„Merkasti náttúruverndarsinni okkar tíma er Sir David Attenborough. Þessi aldni höfðingi hefur tekið að sér það mikilvæga hlutverk að vera rödd þeirra sem geta ekki tjáð sig sjálf: dýra og plantna, gjörvalls lífríkis jarðar sem stendur frammi fyrir áður óþekktri ógn af hálfu mannkyns. …

Eins og Attenborough bendir á hefur mannkynið um langa hríð farið illa með náttúruleg heimkynni laxastofna í ám og hafinu. Nýjasta ógnin er stóraukið sjókvíaeldi á laxi en erfðablöndunin við eldislax dregur mjög úr getu villtra stofna til að lifa af í umhverfi sem er þeim nú þegar fjandsamlegt af manna völdum.

Það er löngu tímabært að við snúum af þessari óábyrgu braut í umgengninni við náttúruna. Ísland er eitt af síðustu vígjum villta laxins vegna þess að hér hefur ekki verið sjókvíaeldi á iðnaðarskala. Okkur ber skylda til að verja þetta vígi. Þegar Sir David talar, þá eigum við að hlusta.“