Þann 10. apríl verður heimsfrumsýnd hér á Íslandi merkileg heimildarkvikmynd sem bandaríski útivistarvöruframleiðandinn Patagonia framleiðir. Myndin heitir Artifishal og fjallar um hvernig villtir laxastofnar um allan heim eiga undir högg að sækja vegna ágangs mannkyns með ýmsum hætti.

Meginefni myndarinnar snýst um þá ömurlegu stöðu sem komin er upp í Bandaríkjunum að Kyrrahafslax er tekinn í klak og seiði ræktuð í stöðvum frekar en að villtu stofnarnir fái að hrygna sjálfir við náttúrulegar aðstæður. Þar í landi eru eldisstöðvarnar orðnar svo mikilvægar í efnahagslegu tilliti að þær eru látna ganga fyrir hringrás náttúrunnar.

Þessi freklegu inngrip mannsins hafa haft afar slæm áhrif á Kyrrahafslaxinn.

Í myndinni er einnig styttri kafli um hrikaleg áhrif sjókvíaeldis á villta laxastofna.

Í Noregi, þar sem sjókvíaeldið er mest, er til dæmis nú svo komið að um 66 prósent villta laxastofna ber slæm eða mjög slæm merki erfðablöndunar við eldisfisk með afar vondum afleiðingum fyrir afkomu þessara stofna.

Góðu heilli er staða klakstöðva hér á landi og í Bandaríkjunum á engan hátt sambærileg. Laxastofnar eru sjálfbærir í miklu meirihluti laxáa hér á landi og hrygna við náttúrulegar aðstæður.

Íslendingar sýndu framsýni þegar lög voru sett fyrir þremur áratugum um að einungis mætti nota heimastofna viðkomandi ár þegar þarf að grípa til fiskræktunar. Er það í meginatriðum aðeins gert þegar þarf að hjálpa stofni eftir að umhverfi hans hefur verið raskað af mannavöldum. Er þetta starf unnið eftir reglum og eftirliti frá Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu.