„Varla er hægt að leyfa sér að setja laxastofna Íslands í hættu vegna rangtúlkunar á enskum texta úr góðri vísindagrein.“ Þetta eru lokaorð í svörum Hafrannsóknastofnunar við athugasemdum Ólafs I. Sigurgeirssonar, lektors við Háskólann á Hólum, sem hann sendi á samráðsgátt stjórnvalda við drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

Erindi Ólafs í samráðsgáttinni beinist að mestu að áhættumati Hafrannsóknastofnunar en í svari sínu til lektorsins jarðar stofnunin af algjöru miskunnarleysi athugasemdir hans. Í svari Hafró kemur fram að Ólafur misskilji eða fari rangt með fjölmörg atriði í athugasemdum sínum.

Þar á meðal er gagnrýni Ólafs á 4 prósent þröskuldsgildið fyrir innblöndun eldisfiska í ár landsins, en það gerir ráð fyrir að allt að 1 af 25 fiskum sem ganga í ár geti verið sleppifiskar úr eldi. Ólafur og aðrir stuðningsmenn sjókvíaeldis hafa gagnrýnt þann þröskuld harðlega, finnst hann of lágur og hafa vísað í norska líkindarannsókn sem sýnir að óhætt sé að hafa þröskuldinn hærri.

Lesendur þessarar síðu kannast við þessa umræðu. Af hálfu IWF hefur margsinnis verið bent á norska líkanið eigi við um norskan villilax og norskan eldislax en hér séu aðstæður allt aðrar því íslenskir laxastofnar séu viðkvæmari fyrir blöndun þar sem eldislaxinn er af norskum uppruna. Höfum við meðal annars bent á skrif norska vísindamannsins Kjetils Hindars um þennan mikilvæga punkt.

Í svari Hafró eru tekin af öll tvímæli um að þetta meginatriði í gagnrýni Ólafs og skoðanabræðra hans á áhættumatið á ekki við rök að styðjast og eru meðal annars orð höfundar líkansins höfð fyrir því: „Kevin Glover, rannsóknastjóri hjá norsku Hafrannsóknastofnuninni, […] bendir á að svipgerða- og stofngerðamunur á milli villtra íslenskra stofna og norskættaðra eldisfiska er meiri en milli norskættaðra eldisfiska og villtra stofna í Noregi. Hann bendir á að hér sé niðurstaða úr líkani sem byggi á samlegðaráhrifum gena. Sérstaklega ber að hafa í huga þætti sem ekki hafa bein samlagningaráhrif og geti, í tilfelli norskættaðra eldisfiska á Íslandi, gefið óvænta útkomu jafnvel við lágt hlutfall eldisfiska ám.“

Kjarni málsins er einmitt þessi. Engar rannsóknir eru til um afleiðingar þess að norskur eldislax fái að ganga í íslenskar ár. Vísbendingarnar eru hins vegar skýrar og þess vegna hafa vísindamenn lagt þunga áherslu á að farið verði varlega. Sjókvíaeldismenn hafa með öllum ráðum reynt að grafa undan áhættumati Hafró og hefur því miður tekist að fá sjávarútvegsráðherra með sér í þann sorglega leiðangur.

Reglulegir gestir þessarar síðu kannast margir orðið við Ólaf lektor. Hann hefur sjálfur sett hér inn ýmsar athugasemdir og þá hafa talsmenn sjókvíaeldisins verið iðnir við að nota skrif hans sem heimild fyrir málstað sínum. Eftir þessi svör Hafró liggur fyrir að ekki stendur steinn yfir steini í gagnrýni Ólafs.