Hagsmunagæslufólk sjókvíaeldisfyrirtækjanna tjaldar nú öllu til í þrýstingi sínum á Hafrannsóknastofnun og lögggjafarvaldið. Nokkrar af helstu almannatengslastofum landsins ásamt lögmannsstofunni Lex starfa fyrir iðnaðinn, sem á morgun mun efna til þessarar „kynningar“ (sjá mynd) fyrir fjölmiðla um áhættumat Hafrannsóknastofnunar, sem er þeim mikill þyrnir í augum.

Athyglisvert er að engum fulltrúa Hafrannsóknastofnunar er boðið til þessa viðburðar. Þau sem sitja fyrir svörum eru öll á vegum sjókvíaeldisins með einum eða öðrum hætti. Þar á meðal er Þorleifur Ágústsson sem tók þátt í að skipuleggja för atvinnuveganefndar Alþingis til Noregs á dögunum.

Meðal umræðuefnis fundarins á að vera áhættumatið sem norsk yfirvöld styðjast við í umgjörðinni um sjókvíaeldi.

Verður fróðlegt að heyra hvernig þessi fundur ætlar að komast fram hjá því að í Noregi er lagt blátt bann við notkun á laxastofnum frá öðrum löndum í fiskeldi. Án þess að ræða þá staðreynd er umræða um norska áhættumatið vita tilgangslaus.

Ár er nú liðið frá því síðast var látið reyna á þetta bann en þá ítrekaði norska umhverfisráðuneytið að ekki kæmi til greina að flytja inn skosk-norsk laxahrogn.

„(Villti stofninn í Noregi) hefur nú þegar orðið fyrir neikvæðum áhrifum frá norskum eldislaxi sem hefur sloppið úr eldi. Erfðablöndun við framandi gen munu auka þessi neikvæðu áhrif,“ sagði Ola Elvestuen, umhverfisráðherra Noregs þegar bannið var staðfest í fyrra.