Víða á Vestfjörðum er góðar náttúrulegar aðstæður fyrir landeldi á fiski, þvert á við það sem haldið hefur verið fram í umræðum um valkosti fyrir svæðið í fiskeldismálum. Slíkar rangfærslur hafa verið sérstaklega áberandi í kjölfar þess að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti leyfi fyrir laxeldi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði á þeim forsendum að ekki hefði farið fram viðunandi valkostagreining.

Í viðtalið við RÚV sagði til dæmis Helgi Thorarensen, prófessor í fiskeldi við Háskólann á Hólum, að aðrir valkostir en sjókvíaeldi væru ekki raunhæfir á Vestfjörðum. „Þá segir hann að þrátt fyrir að Íslendingar hafi í raun meiri reynslu af landeldi en aðrar þjóðir, þá þurfi til þess jarðhita, sem er ekki til staðar á Vestfjörðum,“ er endursögn fréttamanns RÚV á orðum Helga í frétt sem birtist 10. október 2018. Þremur dögum áður hafði Kjartan Ólafsson, stjórn­ar­formaður Arn­ar­lax, sagt í samtali við mbl. is að sú val­kosta­grein­ing sem nefnd væri í kær­unni til úr­sk­urðar­nefnd­ar­inn­ar ætti ekki við og væri óraun­hæf.

Báðir þessi talsmenn sjókvíeldis eru á villigötum. Á Vestfjörðum eru víða afbragðs náttúrulegar aðstæður fyrir landeldi. Prófessorinn segir að ekki sé jarðhiti fyrir vestan, sem er alrangt eins og ýmis staðarheiti bera með sér. Á Reykjanesi við Djúp, til norðurs, og á Reykhólum, til suðurs, kemur til dæmis upp vatn sem er um 100 gráðu heitt.

(Áhugasamir geta lesið grein á Vísindavef Háskóla Ísland sem heitir „Af hverju er jarðhiti svona víða á Vestfjörðum?“)

Jarðhiti, undirlendi og góður aðgangur að vatni og sjó eru kjöraðstæður fyrir vel heppnuðu landeldi. Hér á Íslandi eru nú þegar stórar slíkar stöðvar í eigu Samherja og Matorku.

Frá náttúrunnar hendi er ekkert því til fyrirstöðu að reisa sambærileg mannvirki á Vestfjörðum. Þvert á móti eru aðstæður jafnvel frábærar, eins og virðist til dæmis vera raunin með jörðina Nauteyri við Ísafjarðardjúp.

Eigandi Nauteyrar er Hraðfrystihúsið Gunnvör sem hefur lýst yfir miklum áhuga á að hefja laxeldi við Djúpið. Rekur dótturfélag þess Háafell reyndar nú þegar laxaseiðaeldi í landeldisstöð á Nauteyri. Áhugi móðurfélagsins virðist þó einskorðast við að hefja umfangsmikið sjókvíaeldi. Nauðsynlegt er að átta sig á í því samhengi að sá áhugi er ekki vegna þess að náttúrulegar aðstæður eru slæmar.

Á Nauteyri eru nú þegar fimm heitavatnsholur, sjódælur, brunndælur fyrir kalt vatn og á eyrinni væri pláss fyrir risastöð.

Í Noregi var athafnamaðurinn Geir Nordahl-Pedersen að sækja um leyfi fyrir risavaxinni landeldisstöð sem á að framleiða 50 þúsund tonn á ári. Í umsókninni kemur fram að kvíastæðið á að vera 500 sinnum 90 metrar, eða 45 þúsund fermetrar. Til samanburðar er Nauteyri rúmir 2.00.000 fermetrar að stærð og er svæðið „fremur láglent, undirlendi allnokkurt“ eins og segir í deiliskipulags- og matslýsing frá 2015. Í aðalskipulagi er Nauteyri skilgreint sem iðnaðarsvæði og efnistökusvæði.

Miðað við burðarþolsmat Hafró getur opið sjókvíeldi í Vestfjörðum ekki orðið meira en 30 þúsund tonn (sú mengun og lífmassi sem Hafró metur að svæðið þoli) en áhættumat vegna erfðablöndunar við villta stofna útilokar hins vegar opið sjókvíaeldi.

Með þessari úttekt fylgir mynd af fyrirhugaðri 45 þúsund fermetra landeldisstöð Nordahl-Pedersen í Noregi (úr umfjöllun salmonbusiness. com) og loftmynd af jörðinni Nauteyri við Ísafjarðardjúp þar sem búið er að merkja út fyrir álíka stórri stöð.

[/vc_column_text][/vc_column][/vc_row]