Merkilegar umræður fóru af stað í athugasemdakerfi okkar í kjölfar þess að við deildum frétt The Guardian um mikla skógareyðingu í Amazon og rifjuðum upp fréttaflutning í norskum fjölmiðlum um hlut fóðurs í laxeldi í þeim hörmungum. Meðal þeirra sem blönduðu sér í slaginn í athugasemdunum var Ólafur Sigurgeirsson, aðstoðarprófessor við fiskeldisdeild Háskólans á Hólum. Sagði Ólafur það vera „einfeldni að yfirlögðu ráði eða heimskulegur áróður“ að benda á þetta samhengi.

Það er kapítuli út af fyrir sig að þurfa að sitja undir svona kveðjum frá kennara í opinberum háskóla, en við berum okkur ekki illa yfir því enda orðin ýmsu vön í baráttu okkar fyrir náttúru og lífríki Íslands.

Það ætti hins vegar að vera umhugsunarefni fyrir Hólaskóla hversu illa aðstoðarprófessorinn er að sér í umræðunni um fiskeldi fyrst hann þekkir ekki átökin sem hafa átt sér stað um þetta efni. Ólafur hefur reyndar sýnt áður í umræðum, meðal annars í athugasemdakerfinu á þessari síðu, að hann virðast vilja kjósa að snúa blinda auganu að þeim skaða sem sjókvíaeldi veldur á náttúrunni.

Við látum hér fylgja skjáskot af fréttum og umfjöllun um tengsl skógareyðingar, sojabaunaræktunar og framleiðslu fóðurs fyrir laxeldi.

Í fyrstu athugasemd við þessa færslu er svo viðtal frá því í gær (30. júlí) við framleiðslustjóra stærsta laxeldisfóðurfyrirtækis Noregs, Skretting Averøy, þar sem meðal annars er rætt um hlut sojabauna í fóðrinu og tengslin við skógareyðingu í Amazon.