Norðmenn hafa gefist upp á björgunaraðgerðum á einum frægasta stórlaxastofni heims sem hefur átt heimkynni í Vosso ánni á vesturströnd Noregs í þúsundir ára.

Norsk stjórnvöld hafa eytt andvirði tæplega þremur milljörðum íslenskra króna í tilraunir til að bjarga Vossolaxinum en baráttan er töpuð. Mest af fjármagninu hefur komið úr sjóðum almennings en sjókvíaeldsifyrirtækin hafa lagt til hluta þar sem þau eru talin eiga sinn þátt í ástandinu.

Samkvæmt frétt DN eru helstu ástæður þessarar sorglegu þróunar raktar til virkjanaframkvæmda, ofveiði í hafinu og í seinni tíð til sjókvíaeldis sem gerði lífsbaráttu aðþrengds stofnsins nánast ómögulega.

Þetta er hinn kaldi veruleiki í Noregi. Hér á landi þurfum við enn að hlusta á talsmenn sjókvíaeldisins halda því fram án þess að blikna að hættan sé engin. Skömm þeirra er mikil.