Framtíð laxeldis heldur áfram að teikna sig upp út í heimi þó sjókvíaeldisfyrirtækin hér og lobbíistar þeirra innan og utan Alþingis kjósi að loka fyrir því augunum. Nú er svo komið að níu fyrirtæki hafa fengið leyfi til að reisa landeldisstöðvar í Noregi. Eru sum komin vel á veg með sínar stöðvar eins og sagt er frá í meðfylgjandi fréttaskýringu norsku viðskiptafréttaþjónustunnar Sysla.

Alls búa norsku fyrirtækin yfir leyfum til að framleiða um 31 þúsund tonn af laxi á ári. Til samanburðar verða framleidd innan við 15 þúsund tonn hér á landi á þessu ári.

Í frétt Sysla er birt kort sem sýnir staðsetningu landeldisstöðvanna. Þær eru að rísa allt frá Osló og norður í Þrándheim. Svo halda sumir því fram án þess að blikka augum að þetta sé ekki hægt á Vestfjörðum?

Það er ótrúlegt til þess að hugsa ef stjórnvöld ætla að greiða götu þeirra sem vilja flytja inn öll þau gríðarlegu vandamál sem fylgja stórfelldu iðnaðareldi í opnum sjókvíum.

Auðvitað eigum við á Íslandi að byggja okkar eldi strax upp á sjálfbærum og umhverfisvænum grunni. Við höfum allt sem til þarf. Nægt landsvæði, feikilegt framboð af hreinu vatni og jarðhita.

[Magn yfir framleiðslu hefur verið leiðrétt frá fyrstu útgáfu þar sem ranglega kom fram að tonnin væru 45 þúsund talsins. Við þökkum Kristjáni Davíðssyni ábendinguna.]