Mjög athyglisverð úttekt var sýnd í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi. Þar kom meðal annars fram að víða um heim hefur mannkyn orðið þess valdandi að lífverur hafa flust til nýrra heimkynna, þar sem þær hafa valdið raski í vistkerfum og á tíðum, miklu efnahagslegu tjóni.

Þetta er í hnotskurn hættan við að ala frjóan norskan eldislax í opnum sjókvíum við Ísland.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að eldislax af norskum uppruna átti aldrei að fá að fara ofan í sjó hér, enda öllum ljós sú hætta sem það myndi valda. Það var mikið ógæfuspor þegar ráðherravaldi var beitt til þess á sínum tíma að horfið var frá því að heimila eingöngu að norski laxinn yrði nýttur hér til landeldis.

Í umfjöllun RÚV segir m.a.:

“Skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands fann fjölda skordýra í mold sem fylgdi innfluttum plöntum til landsins í vor og fréttaskýringaþátturinn Kveikur lét rannsaka. Dæmi eru um að skaðvaldar hafi borist með þessum hætti til landsins.

Víða um heim hefur maðurinn orðið þess valdandi að lífverur  hafa flust til nýrra heimkynna, þar sem þær hafa valdið raski í vistkerfum og á tíðum, miklu efnahagslegu tjóni.

„Í dag eru framandi tegundir önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á eftir búsvæðaeyðingu,“ segir Óskar Sindri Gíslason sjávarlíffræðingur. „Þetta er í rauninni stærra vandamál en mengun.“

Á Íslandi hefur framandi lífverum fjölgað ár frá ári og sjö þeirra eru nú skilgreindar sem ágengar. Það er að segja, þeim vegnar svo vel í náttúru Íslands að það kemur niður á tegundum sem fyrir voru.”