IWF hefur nú í rúmar fimm vikur en án árangurs freistað þess að fá upplýsingar hjá MAST um hversu mikið af eldislaxi slapp úr sjókví Arnarlax í Tálknafirði. Fyrirtækið tilkynnti þann 6. júlí að stór göt hefðu fundist á kví sem í voru 150 þúsund fiskar.

Í frétt RÚV í júlí (sjá hér og hér) kom fram að tvö göt hefðu fundust á kvínni, að eldisfisks hefði orðið vart utan kvíar og að fiskarnir hafi verið um þrjú og hálft kíló að stærð. Í frétt RÚV var staðfest að óljóst var hversu mikið af fiski slapp. Seinna var sagt frá því að tala yfir þann fjölda kæmi ekki fram fyrr en að lokinni slátrun.

Þann 13. september sendi fulltrúi IWF tölvuskeyti til Matvælastofnunar (MAST) og óskaði eftir upplýsingum um þetta atvik og hvernig eftirliti stofnunarinnar yrði háttað við slátrun úr kvínni. Þetta svar barst samdægurs frá MAST: „Slátrun er þegar hafin. Eftirlitsmenn Matvælastofnunar verða ekki á staðnum þegar lokið verður við slátrun og fyrirtækið heldur tölur vegna slátrunar.“

Í kjölfar fyrirspurnar frá IWF staðfesti fulltrúi MAST þann 2. október að slátrun væri lokið hjá Arnarlaxi í Tálknafirði en að sagði jafnframt að Matvælastofnun hefði „ekki borist sláturtölur enn sem komið er.“

Eftir ítrekun um upplýsingar og útskýringar á því hvað tefði málið kom þetta svar frá MAST þann 9. október: „Við getum ekki útskýrt töfina sérstaklega fyrir hönd fyrirtækisins, en það hefur líklega ekki farið framhjá almenningi það umfangsmikla ástand sem nú er í gangi í kjölfar úrskurðar ÚUA vegna fiskeldisins.“

Síðan eru liðnir níu dagar og MAST er hætt að svara fyrirspurnum frá fulltrúa IWF.

Staðan er því þannig að starfsmenn MAST, sem eiga að hafa eftirlit með starfsemi sjókvíaeldisfyrirtækja, sitja og bíða í Reykjavík eftir að eitt þeirra gefi upplýsingar um atvik sem verður að teljast meiriháttar frávik í rekstri. Tvö stór göt á sjókví með 150 þúsund af 6 til 7 punda frjóum eldislaxi er ekkert smá mál.

IWF hefur líka óskað eftir upplýsingum frá MAST um aðferðarfræði stofnunarinnar við að staðfesta áreiðanleika þeirra upplýsinga sem berast frá innra eftirliti sjókvíaeldisfyrirtækjanna. Arnarlax hefur til dæmis gefið út að 200 þúsund fiskar hafi drepist í kjölfar flutninga milli sjókvía þegar kví, sem fiskurinn var í, sökk að hluta í janúar á þessu ári.

IWF spurði MAST hvernig stofnunin hefði staðfest að sá sá fiskur hefði allur drepist, en ekki sloppið að hluta til. Þrátt fyrir töluverðan eftirgang hefur MAST ekki enn sent svör við þeirri fyrirspurn heldur.