Stundin fær ekki frekar en við hjá IWF upplýsingar um hversu mikið af fiski slapp úr sjókví í Tálknafirði eftir að net rifnuðu. Götin á netunum uppgötvuðust í júlí.

Þetta mál verður furðulegra með hverjum deginum sem líður. Eftir langa töf á að Arnarlax skilaði þessum upplýsingum til MAST neitar stofnunin nú að gefa þær upp.

Í frétt Stundarinnar segir m.a.:

“Matvælastofnun hefur ekki veitt upplýsingar um hversu margir laxar sluppu úr eldiskví hjá laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi í Tálknafirði sem fimm göt komu á í júlí í sumar. Fjöldi laxa sem voru um 3,5 kíló að stærð sluppu út um götin en ekki hefur verið greint frá því hversu margir þeir voru. Strax eftir að götin uppgötvuðust voru sett út net til að veiða laxa sem mögulega sluppu úr kvínni og veiddust fimm eldislaxar í umrædd net. Síðan þá hefur ekkert spurst út um hversu margir laxar sluppu en 150 þúsund eldislaxar voru í kvínni þegar götin komu á hana. Arnarlax slátraði úr umræddri kví fyrir nokkrum vikum síðan, samkvæmt stjórnarformanni fyrirtækisins, Kjartani Ólafssyni,  og sendi Matvælastofnun í kjölfarið upplýsingar um hversu margir laxar hefðu verið í kvínni þegar slátrað var úr henni.”