Hér er ítarleg frétt á vef RÚV um eldislaxana sem voru fangaðir fyrir vestan.

Þetta mun ekki enda vel fyrir íslenska náttúru og villta laxastofna ef sjókvíaeldið fær að halda hér áfram og vaxa enn frekar.

“Lífsýni úr tveimur löxum sem veiddust í október í Fífustaðadalsá í Arnarfirði staðfesta að þeir voru norskættaðir eldislaxar úr sjókvíaeldi hér við land. Jóhannes Sturlaugsson, hjá rannsóknarfyrirtækinu Laxfiskum, hefur vaktað þrjár ár í Arnarfirði undanfarin fjögur ár og segir þetta fyrstu kynþroska eldishrygnur sem veiðast í íslenskum ám á hrygningartíma, sem komnar séu að hrygningu. „Við forðuðum heimastofninum frá blöndun í þetta sinn,” sagði hann í samtali við fréttastofu.

Stærsta laxeldisfyrirtæki landsins er með eldi í Arnarfirði. Fjöldi laxa slapp úr kvíum fyrirtækisins fyrr á árinu. …

Á vefnum Laxfiskar.is segir Jóhannes að þessir tveir eldislaxar hafi verið 9% af þeim laxi sem var mættur þetta árið til hrygningar í Fífustaðadalsá. Þessi háa hlutdeild eldislaxanna af hrygningarlaxi í ánni sé raunverulegt dæmi um í hve mikilli hættu litlir laxastofnar í nálægð við sjókvíaeldissvæði sé fyrir erfðablöndun af hálfu eldislaxa.

Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Jóhannes að þótt stofnarnir sem um ræðir séu litlir séu þeir sjálfbærir. „Þeir hafa sama tilverurétt og stærri stofnar nema einhverjir misvitrir fari að ákveða eitthvað annað.”