Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir í meðfylgjandi frétt sem birtist á Stöð2 og svo Vísi, að þeir eldislaxar sem hafi veiðst í ám undanfarið séu líklega aðeins toppurinn á ísjakanum.

Það kemur ekki fram í fréttinni en það sem gerir göngur eldislax í ár svo alvarlegt mál er að eftir markvissa ræktun í margar kynslóðir er hann orðinn hraðvaxta húsdýr sem býr yfir eiginleikum sem minnka mjög möguleika villtu stofnanna til að komast af í náttúrunni ef hann blandast þeim.

Það er ekki aðeins erfðablöndunin sem er hættuleg við þessar aðstæður heldur er viðvera eldislaxa í ám ein og sér háskaleg því þeir keppa við villtu stofnana um æti og hrygningarstaði og geta þar að auki borið með sér sjúkdóma.

Augaleið gefur að þessi vá mun vaxa í réttu hlutfalli við útgáfu leyfa til að setja niður frjóan norskan eldislax í opnar sjókvíar við Ísland. Stjórnvöld hafa í hendi sér að afstýra þessari hættu.