Í frumvarpsdrögum sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi er ekki gert ráð fyrir að eftirlit verði hert með þessari stafsemi. Staðan er núna sú að einn starfsmaður MAST hefur eftirlit með öllu fiskeldi í landinu og hefur hann aðsetur á Selfossi, sem er um það bil eins langt og hægt er að komast frá því þar sem meginhluti fiskeldisins fer fram.

Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að eftirlitið sé fyrst og fremst í höndum fyrirtækjanna sjálfra. Þau haldi uppi innra eftirliti og sendi MAST skýrslur.

Í augum uppi liggur að þetta er mjög veikburða kerfi. Fyrirtækin hafa augljósa hagræna hvata af því að gefa ekki upp upplýsingar sem kunna að skaða þau.

Þessi stóri galli á frumvarpsdrögum ráðherra verður enn skýrari þegar ný úttekt Ríkisendurskoðunar á Fiskistofu er höfð til hliðsjónar. Í henni kemur fram stór áfellisdómur um þá umgjörð sem stjórnvöld hafa kosið að búa stofnuninni, en með henni er geta Fiskistofu til að sinna lögbundinni eftirlitsskyldu sinni mjög takmörkuð. Þarf hún meðal annars að treysta á tilkynningarskyldu handhafa aflahlutdeilda þegar kemur að eftirliti með hvort aflahlutdeild sé í samræmi við það hámark sem skilgreint er í lögum, í stað þess að byggja á eigin upplýsingaöflun.

Með nokkrum ólíkindum er að ráðherra kjósi að leggja fram frumvarpsdrögin án þess að bætti sé úr þessum alvarlega galla. Slæm staða eftirlitsins er löngu kunn og hefur meðal annars verið bent á hana af hálfu MAST. „Fyrst og fremst verðum við að fá inn fjármagn til að ráða starfsfólk til að auka eftirlit með fiskeldi,“ sagði til dæmis fagsviðsstjóri fiskeldis hjá MAST síðastliðið haust.

Sjá frétt Fréttablaðsins