Við megum til með að birta þessi orð Einars Fals Ingólfssonar úr umræðum við eina grein hér á Fb síðu okkar. Þau eru lýsandi fyrir þá virðingu og þau tengsl við náttúruna og villta laxinn sem svo margir rækta með sér eftir að hafa eytt dögum við okkar fallegur veiðiár. Þetta svar Einars Fals kom í umræðum við mann sem hélt því fram að árnar byggju ekki yfir eigin laxastofnum.

„Makalaust að sjá menn tala náttúru forfeðra okkar og afkomenda niður með þessum hætti. Ef þú hefur sjálfur veitt lax í ám eins og Víðidalsá og Fitjá, og Laxá í Aðaldal og Reykjadalsá, þá ættirðu að vita að það er um afar ólíka stofna að ræða; Víðidælingurinn sem enga fossa þarf að stökkva er þykkur og þungur og sporðlítill hlutfallslega en Fitjárlaxinn í þveránni er grannur með mjög stóra blöðku sem þeytir honum upp hávaðana. Þetta þekkja veiðimenn vel. Og vitaskuld hafa vísindamenn staðfest þetta hér eins og í Noregi, að ólíkir stofnar hafa þróast um þúsundir ára – en því miður tala eldisunnendur og þjónar norsku innrásarfyrirtækjanna náttúru okkar í sífellu niður og skirrast ekki við að koma með erlenda stofna inn í náttúru okkar og ógna henni. Það er líka auðvelt að finna örfáa vísindamenn sem hafna hlýnun jarðar af mannavöldum – og stórfyrirtækin og eyðingaröflin styðja mál sitt með svokölluðum kenningum þeirra. Sama gera eldismenn. Og gera lítið úr þeim mikla þorra vísindamanna sem benda á hættuna.“